Ótrúlegt en satt klæðist ég ekki lopapeysum, ég er mjög viðkvæm og einu skiptin sem ég nota gömlu flottu peysuna sem mamma prjónaði á mig fyrir mörgum árum er í útilegum en þá kemur hún til góðra nota. Mig langaði í peysu sem ég gæti verið í á prjónagleðinni svo ég geti nú sýnt Lopapeysu, þar sem ég væri að selja bók um hvernig eigi að prjóna þær.

Ég hugsaði mig mikið um og ákvað að fara í annað garn en lopa. Ekki misskilja mig, ég er mjög hrifin af íslenska lopanum, en eins og ég nefndi hérna áðan er ég mjög viðkvæm við háls og lófa og get ekki verið í lopapeysunni nema verið í einhverju innan undir. Mig langaði í peysu til að vera í dagsdaglega í vinnunni og við seljum ekki lopa í vinnunni svo það væri hallærislegt að vera í peysu sem væri prjónuð úr öðru garni sem því sem er selt hjá okkur. Því kom ekki annað til greina en að nota Cascade 220 sem er sami grófleiki og léttlopi og því gat ég farið alveg eftir bókinni minni. Cascade 220 er hrein ull frá perú og er mjög mjúkt og ekkert mál að vera í því. Það heldur vel hita og gefur flotta áferð á prjónið. Svo má ekki gleyma litunum en litaúrvalið hjá Handprjón á cascade 220 er guðdómlegt en um er að ræða tvo heila veggi.

En auðvitað get ég ekki farið alveg eftir uppskrift og þurfti að breyta uppskriftinni smá. Mig langaði í peysu sem náði aðeins niður á rass, smellpassi og væri opni. Cascadeið er ekki eins og ullin, sem er auðveld að klippa upp (ef ég myndi hekla upp og klippa), og ég nennti ekki að fara að blanda saumavélinni í þetta verkefni, þannig að ég prjónaði bara peysuna fram og til baka. Ég byrjaði á ermunum svo þær séu búnar þegar búkurinn er búinn (smá sálræn blekking). Þar fór ég alveg eftir uppskrift og miðað við mínar lengdir og hafði 1sl og 1br stroff. Bolinn prjónaði ég svo fram og til baka og þar sem mig langaði ekki að láta hana dragast saman neðst notaði ég prerluprjón í storffi á bolnum. Ég prjónaði listann framan á jafn óðum og ákvað að sleppa hnappagötum og gera þau eftir á með því að rekja niður og prjóna upp (sjúklega gaman (ekki djók)). Þegar komið var að munstrinu tók ég vinstrihandar taktana til baka svo ég hefði munstrið alltaf að mér.

Ég sem er alltaf með stjörnur í augunum fyrir rauðum valdi að fara í gulan í munstrinu enda er eitthvað gult í gangi og ég er sko að taka þátt í því.

Vá hvað ég var spennt þegar peysan var að klárast og geta loks mátað, og ertu að djóka hvað hún spmellpassaði (enda prjónuð á mig ). Þegar ég ætlaði svo að setja tölur hætti ég bara við af því hún var svo sjúklega flott án talna. Enda er ég alltaf með hana opna hvort sem er.

Nú er ég búin að vera í henni á hverjum degi síðan ég kláraði hana og er að elska hana. Gula nýja sjaldið mitt rambler eftir Andrea mawry passar svo vel við, núna vantar mig bara nýja gula converse skó og þá væri lúkkið fullkomið.

 

-Auður Björt